Innlent

Kópavogur 50 þúsund manna borg

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, tekur launalaust leyfi frá Alþingi á meðan hann gegnir bæjarstjórastarfinu. Framtíðarsýn nýja bæjarstjórans er að innan ekki langs tíma verði Kópavogur orðinn fimmtíu þúsund manna borg. Klukkan 10 í morgun hittust þau á bæjarstjóraskrifstofunni Gunnar I. Birgisson og Hansína Björgvinsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri. Hún tók við þegar Sigurður Geirdal bæjarstjóri féll frá. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa stýrt bænum um árabil en í upphafi þessa kjörtímabils var ákveðið að bæjarstjórastóllinn færðist frá Framsóknarflokki og yfir til Sjálfstæðisflokks. Gunnar er öllum hnútum kunnugur í Kópavogi enda lengi verið forseti bæjarstjórnar, en hann hefur ekki áður verið í þeirri forystustöðu sem hann tekur nú við. Gunnar segist munu vinna eftir þeim málefnasamningi sem flokkarnir gerðu með sér. Hann segir enn fremur að nýjum mönnum fylgi alltaf nýir siðir en hann muni stjórna í anda þess sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafi ákveðið að gera í rekstri bæjarins. Framtíðarsýn hins nýja bæjarstjóra er að Kópavogur, þar sem nú búa um 27 þúsund manns, verði innan ekki langs tíma 50 þúsund manna borg með blómlegu mannlifi. Sem kunnugt er situr Gunnar á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann hyggst ekki sinna báðum störfum samtímis. „Ég mun taka mér launalaust leyfi á Alþingi í haust og einbeita mér eingöngu að þessu hér næsta vetur. Svo eru kosningar næsta vor og maður veit aldrei hvernig það fer allt saman,“ segir Gunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×