Erlent

Hafna frestun kosninganna

Hamas-samtökin hafa hafnað þeirri ákvörðun forseta Palestínu að fresta þingkosningum sem átti að halda um miðjan næsta mánuð. Hættuleg valdabarátta er fram undan. Valdabaráttan sem fylgir þeirri ákvörðun Mahmouds Abbas forseta að fresta kosningunum getur orðið hættuleg því það er regla frekar en undantekning hjá Hamas-samtökunum að grípa til vopna ef  þau eru óænægð og nú segja liðsmenn þeirra að frestuninni sé eingöngu beitt gegn sér. Ekki er ólíklegt að Hamas-samtökin hafi nokkuð rétt fyrir sér í því að frestun kosninganna sé beint gegn þeim. Samtökin hófu þátttöku í stjórnmálum á síðasta ári og hafa í bæjar- og sveitastjórnakosningum unnið marga sigra á hinni spilltu Fatah-hreyfingu Jassers Arafats. Hamas segja nú að Abbas óttist að þau verði svo sterk á þingi að þau ráði þar lögum og lofum. Þau hafna því frestuninni og benda m.a. á að hún sé í andstöðu við Kaíró-samkomulagið. Hamas eru margslungin samtök. Þau hafa verið fremst í flokki í grimmilegum árásum á Ísrael og framið mörg viðurstyggileg hryðjuverk. Það er beinlínis á stefnuskrá þeirra að útrýma Ísraelsríki. Hins vegar reka þau skóla, sjúkrahús og félagsmiðstöðvar á svæðum þar sem fátækt er mikil. Auðvitað nota þau bæði skólana og félagsmiðstöðvarnar til þess að ala á hatri á Ísrael. En vegna harðlínustefnu sinnar og hjálparstarfsins njóta samtökin svo mikilla vinsælda meðal Palestínumanna að það er mjög líklegt að þau geti náð sterkri stöðu á þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×