Innlent

Mótmæla við Kárahnjúka í sumar

Óstýrilátir umhverfisverndarsinnar ætla að slá upp alþjóðlegum tjaldbúðum við Kárahnjúka í sumar. Þeir hafa fengið breskan atvinnumótmælanda til landsins til að kenna réttu mótmælaaðferðirnar. Civil disobedience heitir það upp á ensku sem átti að segja Íslendingum frá síðdegis. Bein þýðing væri borgaraleg óhlýðni en þeir sem að þessu standa kjósa fremur að kalla þetta borgaralegt hugrekki. Hvað er átt við? Paul Gill, sem lengi hefur staðið í mótmælum, segir að borgaraleg óhlýðni og beinar aðgerðir sé að grípa til aðgerða sem taka á vandamálum án þess að vísa þeim til stjórnmálanna eða annarra milliliða til að leysa þau fyrir mann. Þetta snúist um að taka stjórnina sjálfur og segja: „Þetta skiptir mig máli. Ég vil sjálfur grípa til aðgerða og hafa afskipti af því.“ Paul hefur sjálfur verið óhlýðinn svo árum skiptir, lent í varðhaldi lögreglu að eigin mati um tuttugu sinnum en jafnframt náð því að hafa áhrif á framgang þeirra mála sem hann hefur barist gegn. Nýlega var hann í hópi fólks sem smokraði sér inn í sendiráð Íslands í Lundúnum í mótmælaskyni við Kárahnjúkavirkjun og er á því að vel hafi tekist til. En hvaða áhugi er þetta meðal Íslendinga og eru svona aðgerðir fyrirhugaðar? Anna Ösp Magnúsardóttir segir að þær séu ekki fyrirhugaðar en vonandi taki þeir sem sæki námskeiðin aðferðirnar upp og noti þær. Það verði til dæmis reistar alþjóðlegar tjaldbúðir við Kárahnjúka í sumar þar sem Íslandsvinir muni láta sjá sig og vonandi fjöldi Íslendinga sem sé nóg boðið varðandi Kárahnjúkavirkjun og allt í kringum hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×