Innlent

Skipulagsmál helsta kosningamál

Tæpu ári fyrir næstu borgarstjórnarkosningar bendir flest til þess að skipulagsmál verði helsta kosningamálið. Fyrir rúmri viku kynntu sjálfstæðismenn hugmyndir um eyjabyggð í Reykjavík en í dag kynnti borgarfulltrúi R-listans tillögu um framtíðarbyggð á Vatnsmýrarsvæðinu með tengingu við Álftanes. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, kynnti hugmyndirnar á borgarstjórnarfundi í dag, en þær ganga út á að Vatnsmýrin og Álftanes verði þróuð saman sem ein skipulagsheild og að Vatnsmýrin verði byggð upp í nánum tengslum við miðborgarsvæðið. Í hugmyndunum er gert ráð fyrir hraðbraut frá Skerjafirði út á Álftanes. Stefán Jón Hafstein segir að með því að leggja þverbraut yfir Skerjafjörð og yfir á Álftanes sem síðan tengist yfir í Hafnarfjörð þá opnist hringbraut í kringum miðborgarkjarnann sem nú verði framtíðarborgin fyrir höfuðborgarsvæið allt og þar með verði opnað fyrir gríðarlega möguleika fyrir nýja tegund umferðar auk þess sem létt verði á álagspunktum sem séu á umferðarmannvirkjum í borginni. Þannig fáist loksins sú hringtenging umhverfis miðbæinn sem alltaf hafi vantað. Reykjavíkurflugvöllur á að fara úr Vatnsmýrinni samkvæmt þessum tillögum og Stefán segir að það blasi við að hægt sé að finna lausnir sem menn geti sætt sig við. Í þessum nýju hugmyndum um skipulagsmál í borginni er gert ráð fyrir að Suðurgata liggi út á Álftanes og það verði grafin jarðgöng sem muni koma upp við álverið í Straumsvík. Með göngunum styttist leiðin úr miðborg Reykjavíkur til Keflavíkur umtalsvert. Stefán vekur athygli á því að það geti verið miklir hagsmunir fyrir landsbyggðina að hafa innanlandsflug nálægt miðborg Reykjavíkur en það séu mjög miklir hagsmunir fyrir miðborg Reykjavíkur að fljótfarnara sé út á alþjóðlegan flugvöll. Töluverður munur er á tillögum Reykjavíkurlistans og Sjálfstæðisflokksins um skipulag í miðborginni og ljóst að hart verður tekist á um skipulagsmálin í komandi kosningum. Stefán segir að tillagan sé mótspil við tillögu sjálfstæðismanna en með því að byggja uppfyllingar út á sundin og út í eyjar færist þungamiðjan í miðborginni vestur fyrir þann stað sem hún sé nú. R-listinn sé einhuga um það að miðborgin sé þungamiðjan og Vatnsmýrin færi þau tækifæri sem þau þrái. Aðspurður hvort þetta séu hans tillögur eða R-listans segir Stefán að þessi mál hafi verið rædd fram og aftur og einhugur sé innan R-listans um það að Vatnsmýrin sé næsta stóra tækifæri. Svo varpi fulltrúar listans á milli sín hugmyndum um það hvernig þeir sjái fyrir sér framtíðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×