Innlent

Stefnan að hafa álverið á Húsavík

Iðnaðarráðuneytið hefur sett stefnuna á Húsavík við undirbúning álvers á Norðurlandi og miðast vinna við val virkjanakosta nú við þá staðsetningu. Gert er ráð fyrir að jarðgufuvirkjanir í innan við fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Húsavík geti annað raforkuþörf meðalstórs álvers. Straumhvörf urðu í umræðunni um staðarval álvers á Norðurlandi þegar bæjarstjórinn á Akureyri lýsti því yfir í síðasta mánuði að Húsavík ætti að verða fyrsti kostur. Í framhaldi af því sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra eðlilegt að horft væri fyrst til Húsavíkur vegna mikillar orku sem finnst í Þingeyjarsýslu. Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, staðfesti í dag að undirbúningsvinna á vegum ráðuneytisins vegna virkjanakosta og annarra þátta miðist nú við álver við Húsavík. Athyglisvert er að Krafla er sú virkjun sem ætlunin er að standi straum af stærstum hluta þeirrar orku sem þarf til að reka álver við Húsavík því hugmyndin er að stækka hana verulega. Þannig er áformað að stækka núverand Kröfluvirkjun um 100 megavött og ná öðrum 80 megavöttum til viðbótar með „Kröflu tvö“ á svokölluðu vestursvæði. Þetta þýddi fjórföldun Kröfluvirkjunar en hún er í dag 60 megavött og færi upp í 240 megavött. Þá er áformað að virkja 80 megavött í Bjarnarflagi og önnur 80 megavött við Þeistareyki. Þessar jarðgufuvirkjanir duga fyrir allt að 150 þúsund tonna álver en til samanburðar má geta þess að álver Norðuráls á Grundartanga er nú 90 þúsund tonn. Líklegt þykir að stefnt verði að enn stærra álveri við Húsavík en þá er horft til vatnsaflsvirkjunar við Hrafnabjörg í Skjálfandafljóti, skammt frá Aldeyjarfossi. Með þeirri virkjun er áætlað að raforkuframleiðsla dugi fyrir allt að 240 þúsund tonna álver.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×