Erlent

Útiloka ekki lokun Guantanamo

MYND/Reuters
Bandarísk stjórnvöld útiloka ekki að fangabúðunum í Guantanamo á Kúbu verði lokað. Rekstur búðanna hefur verið gagnrýndur harkalega en þar eru nú 540 fangar sem sumir hafa setið inni í rúm þrjú ár, án þess að hafa verið ákærðir. Flestir fangarnir voru teknir í Afganistan 2001 og 2002 og voru fluttir til Guantanamo í þeirri von að þar fengjust upp úr þeim upplýsingar um hryðjuverkasamtökin Al-Qaida. Bandaríska varnarmálaráðuneytið staðfesti í síðustu viku að fangaverðir í búðunum hefðu svívirt Kóraninn, helgirit múslíma, með því að traðka á honum og skvetta á hann þvagi. Hefur þessum og öðrum meintum svívirðingum á bókinni verið mótmælt harðlega í múslímaríkjum. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist lokunar Guantanamo-búðanna og þykir nú ekki ólíklegt að svo verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×