Innlent

Gögn ríkisendurskoðunar stangast á

Á fundi fjárlaganefndar með Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda og fulltrúum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu á miðvikudag taldi ríkisendurskoðun enga ástæðu til þess að rannsaka hugsanlegt vanhæfi Halldórs Ásgrímssonar í söluferli ríkisbankanna. Í samantekt Ríkisendurskoðunar 7. júní segir að engar spurningar hafi vaknað af hálfu Ríkisendurskoðunar enda engin gögn um að hagsmunir hans rækjust eða kynnu að rekast á hagsmuni seljanda í ferlinu. Í minnisblaði Ríkisendurskoðanda, einnig dagsettu 7. júní síðastliðinn, koma hins vegar fram upplýsingar sem embætti hans hefur nú ákveðið að taka til sérstakrar athugunar. Þar er meðal annars bent á að ónákvæmt sé að halda því fram að félagið Hesteyri, sem Skinney Þinganes og Kaupfélag Skagfirðinga notuðu til kaupa á stórum hlut í Keri, hafi á þessum tíma verið einvörðungu í eigu kaupfélagsins. Lúðvík Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar sat fundinn í fjárlaganefnd á miðvikudag. Hann bendir á að Hesteyri hafi fyrst átt aðild að S-hópnum í gegnum Ker og síðan í gegnum eignarhald sitt á hlutabréfum í VÍS. "Fyrir liggur að Hesteyri hagnaðist um 700 milljónir á því þriggja mánaða tímabili sem félagið átti hlutabréf í Keri. Þar sem forsætisráðherra gegndi starfi varaformanns ráðherranefndar um einkavæðingu á þessu tímabili, koma ákvæði stjórnsýslulaga um vanhæfi til skoðunar," segir Lúðvík. Forystumenn stjórnarandstöðunnar ræddu bankasölumálið á fundi í gær, en þann fund sóttu meðal annars fulltrúar hennar í fjárlaganefnd. "Ríkisendurskoðun er í vaxandi mæli að endurskoða eigin verk. Hún hefur endurtekið komið að málinu á fyrri stigum, mætt fyrir nefndir og talið málin upplýst," segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna. Hann bendir á að unnt sé að kjósa sérstakar rannsóknarnefndir á vegum Alþingis ef þurfa þykir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar bendir á að hægt sé að leita til sérfræðinga Háskóla Íslands eða annarra lögfróðra þannig að Ríkisendurskoðun sé ekki sett í þá stöðu að rannsaka eigin verk.. Ekki náðist í Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda í gær. Steingrímur Ólafsson upplýsingafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar segir að forsætisráðherra ætli ekki að tjá sig um málið fyrr en að lokinni rannsókn Ríkisendurskoðunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×