Erlent

Saddam vill réttarhöld í Svíþjóð

Saddam Hussein hefur krafist þess að réttað verði í máli hans utan Íraks og vill helst að það verði gert í Svíþjóð þar sem hann hefur áhuga á að afplána dóm, verði hann dæmdur til fangavistar. Bæði Saddam og lögfræðingar hans gera sér fulla grein fyrir því að stór hluti íröksku þjóðarinnar vill að hann verði dæmdur til dauða og tekinn af lífi sem fyrst. Það kemur því ekki á óvart að hann skuli vilja láta rétta yfir sér annars staðar. Einn af lögfræðingum hans, Ítalinn Giovanni di Stefano, segir að Svíþjóð sé efst á lista Saddams yfir lönd sem hann myndi kjósa til réttarhaldanna. Þar telji hann sig eiga mestar líkur á réttlátri málsmeðferð. Di Stefano segir að ef Saddam verði sakfelldur yrði hægt að flytja hann beint í sænskt fangelsi þar sem hann gæti afplánað dóm sinn. Laga lega séð er ekkert því til fyrirstöðu að réttarhöldin fari fram í öðru landi en Írak. Frá pólitísku sjónarmiði horfir málið hins vegar öðruvísi við. Írakska þjóðin vill fá að fylgjast vel með réttarhöldunum og má telja ólíklegt að ríkisstjórn landsins vogi sér að ganga gegn vilja hennar í þessu máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×