Innlent

Gagnrýnd fyrir að nýta þotu Baugs

Þingmenn gagnrýna að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, hafi þegið boð um að ferðast með einkaþotu Baugs til að vera við tískusýningu Mosaic Fashion Group. Dorrit Moussaieff nýtti sér einkaþotu Baugs aðfaranótt föstudagsins til að komast til landsins og sjá tískusýningu Mosaic Fashion Group. Þetta segir Séðog heyrt og birtir myndir af einkaflugvélinni á Reykjavíkurflugvelli. Á einni myndanna má sjá Toyota Landcruiser jeppa sem er í eigu forsetaembættisins, jeppa sem náði í forsetafrúna á Reykjavíkurflugvöll. Séð og heyrt segir að Jón Ásgeir Jóhanesson og Ingibjörg Pálmadóttir hafi verið með í för. Spurður um hvort eðlilegt sé að forsetafrúin ferðist með einkaþotu Baugs sagði Örnólfur Thorsson, skrifstofustjóri forsetaskrifstofunnar, að skrifstofa forsetans hefði hingað til ekki verið að elta ólar við frásagnir í Séð og heyrt um forsetann og fjölskyldu hans og að hún ætli ekki að fara að byrja á því núna. Fréttastofa Stöðvar 2 leitaði viðbragða þingmanna úr stjórnarliðinu og bar flestum saman um að það bæri vott um dómgreindarleysi af hálfu forsetafrúarinnar að hafa þegið flugferð í boði Baugs. Einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins gekk svo langt að segja að slíkt væri siðlaust. Enginn var þó reiðubúinn að segja skoðun sína opinberlega undir nafni. Í leiðara Séð og heyrt segir að ekki sé nema ár síðan forsetinn neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin sem hefðu bitnað harðast á fjölmiðlum sem Baugur á hlut í og að það komi skringilega fyrir sjónir að svo miklir dáleikar séu með íslensku forsetahjónunum og forráðamönnum Baugs. Í lok leiðara blaðsins segir: „Íslenska þjóðin hlýtur að gera þá kröfu til forsetaembættisins að það sýnir lágmarkssjálfstæði og þiggi ekki gjafir eða aðra risnu af stórfyrirtækjum.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×