Innlent

Þungur rekstur skóla og sendiráða

Ráðuneyti utanríkismála og landbúnaðarmála fóru um og yfir tíu prósent fram úr fjárheimildum á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðayfirliti fjármálaráðuneytisins, samtals um 550 milljónir króna. Útgjöld landbúnaðarráðuneytisins umfram heimildir eru einkum rakinn til Hólaskóla, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og embættis yfirdýralæknis. Þótt útgjöld umfram heimildir fjárfrekustu ráðuneytanna séu hlutfallslega minni fór heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið liðlega einn milljarð króna fram úr heimildum og menntamálaráðuneytið fór 833 milljónir króna fram úr sínum fjárheimildum. Munar þar mestu um 213 milljóna króna umframgjöld Háskólans á Akureyri og 207 milljónir króna hjá Háskóla Íslands. Háskólinn á Akureyri fór samkvæmt uppýsingum fjármálaráðuneytisins 36 prósent fram úr fjárheimildum sínum. Rekstrarkostnaður fimm mennta- og fjölbrautaskóla fór meira en fimmtíu milljónir króna fram úr áætlun. Nær öll útgjöld heilbrigðisráðuneytisins umfram heimildir, 945 milljónir króna, má rekja til Landspítala - háskólasjúkrahúss. Í gögnum fjármálaráðuneytisins er minnt á skyldur ráðuneyta og forstöðumanna til þess að bregðast við ef útgjöld verða meiri en fjögur prósent umfram heimildir og að ráðuneytunum beri að sjá til þess að brugðist sé við þessum niðurstöðum. Þrátt fyrir hallarekstur margra ráðuneyta voru rekstrargjöld ríkissjóðs 9,6 milljörðum króna lægri en áætlað var á síðastliðnu ári. Sex ráðuneyti voru rekin með samtals 2,2 milljarða króna afgangi. Þá má einnig rekja rekstrarafganginn til þess að viðhalds- og stofnkostnaður var á tíunda milljarð króna innan áætlunar og munar þar mestu um aðhald í vegaframkvæmdum og framkvæmdum á vegum menntamálaráðuneytisins. Ráðuneyti utanríkismála og landbúnaðarmála fóru um og yfir tíu prósent fram úr fjárheimildum á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðayfirliti fjármálaráðuneytisins, samtals um 550 milljónir króna. Umframgjöld sendiráða námu um 230 milljónum króna og versnaði fjárhagur þeirra á árinu. Einnig fóru aðalskrifstofa utanríkisráðuneytisins og sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli samtals um 100 milljónir króna fram úr heimildum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×