Innlent

Vill meira fé til menntamála

"Það gengur auðvitað ekki að stofnanir fari fram úr fjárlögum," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra um framúrkeyrsluna hjá stofnunum menntamálaráðuneytisins. "Við fórum fram úr og það er ekki til fyrirmyndar. En við erum að taka á þessum stofnunum og hjálpa þeim að leysa úr sínum vandamálum." Þorgerður skýrir framúrkeyrsluna þó fyrst og fremst með hliðsjón af stóraukinni eftirspurn eftir menntun. "Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart miðað við þensluna í menntakerfinu. Alþingi verður að gera sér grein fyrir því að við erum í stórsókn í menntun og að við viljum fjárfesta í menntun," segir Þorgerður. "Og það kostar fjármagn." Þorgerður vildi ekki útiloka að farið yrði fram úr fjárlögum á þessu fjárlagaári. "Við sjáum fram á aukinn nemendafjölda á framhaldsskólastiginu og líklega einnig á Háskólastiginu. Því er ekki ólíklegt að það kalli á meira fjármagn." Verið er að fara yfir stöðuna á fjárlögum þessa árs innan menntamálaráðuneytisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×