Innlent

Heilsugæslan skilaði afgangi

Rekstur Heilsugæslunnar í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsumdæmi skilaði 40,7 milljóna króna afgangi miðað við fjárheimildir á árinu 2004. Svarar það til 1,4 prósenta af heildarútgjöldum stofnananna á árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsugæslunni. Þar segir enn fremur að afgangurinn lækki uppsafnaðan halla frá liðnum árum um 13 prósent. Á árinu var unnið að ýmsum hagræðingaraðgerðum innan heilsugæslunnar. Gerður var samstarfssamningur við Landspítala - háskólasjúkrahús um framkvæmd margs konar rannsókna, m.a. blóð-, meinefnarannsókna, fyrir heilsu­gæsluna og þá var heimahjúkrun endurskipulögð á árinu. Innan Heilsugæslunnar í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsumdæmi voru í fyrra unnin 427 ársverk. Komur til lækna og hjúkrunarfræðinga heilsugæslu­stöðvanna voru samtals um 300 þúsund. Útgjöld stofnananna námu samtals 2,8 milljörðum króna á síðasta ári og höfðu aukist um 6,5 prósent frá árinu áður. Um 76 prósent útgjaldanna voru vegna launagreiðslna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×