Innlent

Reiknar með nýrri ákæru

Verði öllum átján ákæruliðunum, af þeim fjörutíu sem héraðsdómur hefur gert athugasemdir við í Baugsmálinu, vísað frá dómi er útlit fyrir að Jóhannes Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir verði ekki dæmd sek. Þetta segir Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður. "Verði það niðurstaðan að þessum átján liðum verði kastað út þá stendur nánast ekkert eftir gegn Jóhannesi Jónssyni eða dóttur hans," segir Jón. Hann segir að þrátt fyrir þessar athugasemdir dómsins sé ekki verið að boða endalok málsins sem slíks því eftir standi fjöldi ákæruatriða. "Miðað við það sem saksóknari hefur sagt getur vel verið að það komi til þess að gefin verði út ný ákæra. Það er hins vegar ekki gott mál ef til þess þarf að koma því þá liggur fyrir að fyrri ákæran var gölluð. Ef málið verður dregið til baka og gefin verður út ný ákæra er það verulegt áfall fyrir ákæruvaldið. Ég legg hins vegar áherslu á að það er engin niðurstaða komin í þetta. Það á eftir að flytja málið um þessi atriði. Kannski vill dómurinn bara fá skýringar því hann telur það geta sparað ákveðna vinnu fyrir sig, verjendur og sækjendur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×