Innlent

Áfellisdómur segir lagaprófessor

Lagaprófessor við Háskóla Íslands telur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur áfellisdóm yfir embætti ríkislögreglustjóra. Þá telur varaformaður allsherjarnefndar, Jónína Bjartmarz, rétt að kanna hvort eðlilegt sé að bæði meðferð rannsóknar og ákæruvald fari fram í húsakynnum ríkislögreglustjóra. Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, vill ekki segja til um hvort hann telji rétt af Héraðsdómi að vísa málinu frá í heild. Hann telur þó að forsendur Héraðsdóms til að vísa öllu málinu frá geti staðist þar sem erfitt geti verið að halda málinu áfram sé ákæran vanreifuð að miklum hluta. Stefán telur úrskurðinn í dag vera áfellisdóm fyrir ákæruvaldið. Aðspurður hvort hann telji forsendur vera fyrir því að gefa út nýja ákæru, komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur, segist Stefán telja þær vera til staðar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. „En auðvitað geri ég þá ráð fyrir því að ný ákæra komi fram eins fljótt og unnt er,“ segir Stefán. Jónína Bjartmarz, varaformaður allsherjarnefndar Alþingis, vill ekki hafa stór orð um hvort úrskurðurinn sé áfellisdómur fyrir embætti ríkislögreglustjóra fyrr en málið hefur farið fyrir Hæstarétt því þar liggi síðasta orðið. Hún segir Héraðsdóm sýna ákveðna varfærni, kannski í ljósi niðurstöðu málverkafölsunarmálsins svokallaða fyrir Hæstarétti.  Jónína veltir þó upp þeirri spurningu hvort rétt sé að ákæruvald í skatta- og efnahagsbrotamálum sé í húsakynnum ríkislögreglustjóra, hvort rannsókn málsins og útgáfa ákærunnar eigi að vera á sömu hendi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×