Innlent

Baugsmál sé byggt á sandi

Jóhannes Jónsson stjórnarmaður í Baugi segir að frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á ákærum gegn Baugi, sýni að málið hafi allt verið byggt á sandi af hálfu ákæruvaldsins, að þeirri niðurstöðu komist þrír valinkunnir dómarar Héraðsdóms. Nú þegar ákæruvaldið vísi málinu væntanlega til Hæstaréttar, segist Jóhannes treysta því að þeir dómarar sem tengist Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, verði ekki látnir koma nálægt meðferð Hæstaréttar á málinu. Best væri að málinu yrði einnig þar vísað frá dómi sem ódómtæku máli. Jóhannes segir að verið sé að vinna að undirbúningi skaðabótakrafna Baugs gegn íslenskum stjórnvöldum samhliða málsvörnum. Baugur hafi orðið af tugum milljarða í viðskiptum vegna aðgerða Ríkislögreglustjóra og Skattrannsóknarstjóra. Ef skaðabætur vinnist í málinu muni þær renna til þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti. Jóhannes segir að ákveðnir ráðherrar, ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari ættu allir að sýna sóma sinn í að segja af sér vegna þessara mála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×