Innlent

Kona fær bætur eftir nauðgun

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl þar sem þrír menn voru dæmdir til að greiða konu 1,1 milljón króna í bætur fyrir að hafa brotið gegn kynfrelsi hennar og nauðgað henni. Konan höfðaði sjálf mál á hendur mönnunum eftir að ríkissaksóknari ákvað í ársbyrjun 2003 að falla frá saksókn á hendur mönnunum. Mennirnir höfðu hver á eftir öðrum og samtímis mök við konuna í íbúð í Breiðholti, eftir að fólkið hafði verið á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur, í byrjun ágúst árið 2002. Fram kom fyrir dómi að konan hafi óttast mjög einn mannanna, en síðan bættust hinir tveir í hópinn að áeggjan þess fyrsta. Mennirnir sæta ekki sérstakri refsingu fyrir nauðgunina en í dómi Hæstaréttar kemur fram að nægilega sannað þyki að þeir hafi brotið gegn persónu og frelsi konunnar þannig að bótaábyrgð varði. Réttargæslumaður konunnar fór fram á að ríkissaksóknari endurskoðaði ákvörðun sína um að sækja ekki mál á hendur nauðgurunum en því var hafnað. Þá hafnaði dómsmálaráðherra því í nóvember 2003 að fella niður ákvörðun ríkissaksóknara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×