Innlent

Vinnum óháð pólitísku ástandi

Starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra telja að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi hvorki svarað því hvaða veiðileyfi hafi verið gefið út á Baug né á hvern hátt upphafi rannsóknar máls á hendur fyrirtækinu hafi verið háttað. Starfsmennirnir ítrekuðu sjónarmið sín á ný í gær og fullyrða að veiðileyfi eða andrúmsloft hafi engin áhrif á að ákvörðun var tekin um að hefja opinbera rannsókn í málinu. Formenn innan Landssambands lögreglumanna taka heilshugar undir yfirlýsingar starfsmanna efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóraembættisins en fundur þeirra var haldinn í gær. "Ekkert er hæft í því að lögreglumenn séu viljalaus verkfæri í höndum utanaðkomandi aðila og ásakanir þess efnis eru í raun ásakanir um alvarleg hegningarlagabrot fjölda lögreglumanna... Fundurinn telur hreint með ólíkindum hvernig ákveðnir einstaklingar hafa tjáð sig með órökstuddum hætti og látið liggja að undirlægjuhætti og misbeitingu valds innan lögreglunnar og í raun í réttarkerfinu öllu," segir í ályktun formannafundarins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kveðst hvorki taka ítrekanir starfsmanna efnahagsbrotadeildar til sín né ályktun formanna Landssambands lögreglumanna. "Þeir hljóta að vera að tala til einhvers annars en mín."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×