Innlent

Ketamín einnig notað hér á landi

Ketamín, staðdeyfilyf fyrir hesta sem Sky-sjónvarpsstöðin greindi í dag frá að sé notað á breskum næturklúbbum sem vímugjafi, hefur borist hingað til lands á síðustu árum í nokkrum mæli. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík, segir efnið hafa skotið upp kollinum hér á landi annað slagið á síðustu árum án þess þó að lögregla hafi haldlagt mikið af efninu. Að sögn Ásgeirs hefur lögreglan einna helst orðið vör við efnið í tenglsum við það þegar neytendur þess hafa leitað læknis vegna neyslu þess. Efnið, sem annað hvort er tekið inn í töflu- eða duftformi, er sagt stórhættulegt og geta valdið lömun. Áhrifin sem neytendur fá af neyslu þess eru svipuð og af neyslu LSD eða annarra ofskynjunarefna. Hjá SÁÁ kannast menn við lyfið af frásögn sjúklinga en segja fátítt að inn til þeirra komi fólk sem kalla mætti stórneytendur efnisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×