Innlent

Jón Axel fékk 3 mánuði

Jón Axel Ólafsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður, var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir brot á skatta- og hegningarlögum. Brotin sem Jón Axel var dæmdur fyrir voru framin á árunum 1998 og 99 þegar hann sat sem stjórnarformaður Íslenska fjölmiðlafélagsins ehf. en það rak meðal annars útvarpstöðina Matthildi. Í dómnum segir að félagið, sem tekið var til gjaldþrotaskipta árið 2001, hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ábyrgð á því að starfsemi félagsins væri í réttu og góðu horfi hafi legið hjá hinum ákærða í krafti stöðu hans sem stjórnarformanns, ekki síst í ljósi þess að hann hafi undirritað virðisaukaskattsskýrslur félagsins. Jón Axel neitaði hins vegar alfarið sök. Auk þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar, sem fellur niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð, var Jóni Axel gert að greiða 14,3 milljónir króna í sekt. Sé það ekki gert innan fjögurra vikna skal ákærði sæta 6 mánaða fangelsi. Þá var honum gert að greiða allan sakarkostnað upp á rúmar 290 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×