Innlent

Óvissa um nýjan vef dómstólanna

Anna Mjöll Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs, segir ekki hægt að segja til um hvernær ný heimasíða héraðsdómstóla landsins komist í loftið, en búið er að loka þeirri sem fyrir var. Nú er á slóðinni domstolar.is einungis að finna tilkynningu um að ný síða sé væntanleg og slóð á vefsíðu Héraðsdóms Norðurlands eystra, en þar hafa um árabil verið birtir dómar á netinu. Anna Mjöll segir viðbúið að opnað verði í áföngum, byrjað á upplýsingum um dómstólana, birtar dagskrár þeirra og svo í framhaldinu bætt við dómabirtingu. "En við gerum ráð fyrir að allir dómstólarnir fari inn í nýja kerfið, líka Héraðsdómur Norðurlands eystra," segir hún. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, formaður dómstólaráðs, segir nýja kerfið vera byggt á Outcome-vefumsjónarkerfinu og gerir ráð fyrir að síðurnar verði keyrðar í einhverjar vikur meðan fram fer villuleit og prófun, áður en kemur að formlegri opnun. "Við reynum að hraða þessu eins og við getum, en tímasetningar helgast af svo mörgum þáttum að erfitt er að negla þær niður," segir hún en bætir við að vonir standi til að náist að ljúka verkinu fyrir áramót. Hugbúnaður Outcome og fyrirrennarar hans hafa verið notaðir í vefsíðugerð allt frá árinu 1997 og þróast á þeim tíma frá því að vera uppsetning á einföldum heimasíðum yfir í gerð umfangsmikilla gagnvirkra gagnagrunnsvefja, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×