Innlent

Hrærður og þakklátur

Geir H. Haarde var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum á landsfundi flokksins í dag. Nýr formaður sagðist hrærður og þakklátur en sá gamli gekk á táknrænan hátt af hinu pólitíska sviði. Geir hlaut tæp 95% allra greiddra atkvæða. Í ræðu sem henn hélt eftir að niðurstaðan lá fyrir sagðist hann mjög þakklátur og hrærður fyrir það traust sem honum væri sýnt og kvaðst munu leggja sig allan fram við að rísa undir traustinu. „Ég hef verið lengi í Sjálfstæðisflokknum og veit vel hvað því fylgir gríðarlega mikil ábyrgð að vera formaður hans,“ sagði Geir. Hann fór fögrum orðum um fráfarandi formann og sagði vináttu og samstarf þeirra hafa varað í þrjátíu og fimm ára og það væri ríkulegasta veganesti sitt í þessu starfi. Davíð Oddsson sagðist hrærður og þakklátur yfir hinu glæsilega veganesti sem eftirmaður hans fengi og kvaddi á táknrænan hátt. Hann sagði að vegna þessa gæti hann í bókstaflegri merkingu orðsins horfið glaður og keikur af hinu pólitíska sviði, og gekk skömmu síðar af sviði Laugardalshallarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sigraði Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra á Akureyri, í kosningu um varaformannsembættið. Hún fékk 728 atkvæði eða 62,3% greiddra atkvæða en Kristján Þór hlaut 424 atkvæði eða 36,3% greiddra atkvæða. Þorgerður sagði í ræðu sinni að hún myndi leggja sig alla fram við að efla og styrkja innra sem ytra starf flokksins en til þess þyrfti hún stuðning allra flokksmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×