Innlent

Mótmæla vægri refsingu

MYND/GVA

Landssamband lögreglumanna harmar óeðlilega væga refsingu héraðsdóms Reykjavíkur í gær yfir manni sem ákærður var fyrir fólskulega árás á tvo lögreglumenn í gær.

Maðurinn var dæmdur fyrir lífshættulega árás þar sem hann lagði tvisvar til annars lögreglumannsins með hnífi en einu sinni til hins. Tekið var fram í dómnum að árásin hafi verið einstaklega fólskuleg og hættuleg þar sem grunnt er á slagæðar þar sem hann náði að stinga annan lögreglumanninn í lærið.

Í tilkynningu frá Landssambandi lögreglumanna er bent á að refsirammi fyrir hótanir og brot gegn valdsstjórninni heimili allt að sex ára fangelsisdóm. Í þessu tilviki hlaut brotamaðurinn aðeins átján mánaða fangelsi. Landssamband lögreglumanna segir ljóst að svo vægur dómur dragi verulega úr fælingaráhrifum refsingarinnar. Landssambandið telur því að dómurinn dragi augljóslega úr vinnuöryggi lögreglumanna.

Að mati Landssambands lögreglumann er þörf á viðhorfsbreytingu dómenda til ofbeldis gagnvart fulltrúum valdsstjórnarinnar. Þeir segja núverandi ástand þegar refsiramminn er nýttur að óverulegu leyti sé með öllu ólíðandi og ógn við réttaröryggi lögreglumanna sem og annarra borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×