Innlent

Mótsagnakenndar klisjur

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks.

Yfirlýsingar formanns Samfylkingar um að íhaldsmenn og frjálshyggjumenn reyni að skreyta sig fjöðrum jafnaðarmennsku eru mótsagnakenndar og klisjukenndar segir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í gær að frjálshyggjan væri á undanhaldi. Hún sagði að íhaldsmenn og frjálshyggjumenn reyndu að sveipa sig anda og yfirbragði jafnaðarstefnunnar til að höfða til kjósenda. Þetta þyrftu kjósendur að varast.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðismanna, gefur lítið fyrir þessu orð formanns Samfylkingar og segir Ingibjörgu Sólrúnu lítill greiði gerður með því að fjölmiðlar tóku þessi orð hennar út úr í fréttaflutningi. "Það sem ég hef heyrt er mjög mótsagnakennt og sýnir enga sérstaka, breiða stefnu Samfylkingar. Hún er kannski ekki til. Ég þori bara ekki að segja til um það eftir þessa ræðu," segir Arnbjörg.

Arnbjörgu finnst orð Ingibjargar Sólrúnar um frjálshyggju ekki hitta Sjálfstæðisflokkinn fyrir. "Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið sérstaklega kenndur við frjálshyggju. Hann er mjög íslenskur flokkur með þær áherslur sem íslensk þjóð hefur þurft á að halda. Það er þess vegna sem Íslendingar hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×