Mikil skelfing greip um sig í herbúðum Los Angeles Lakers á sunnudagsmorguninn þegar úkraínski miðherjinn Slava Medvedenko féll í yfirlið í lyftu þegar liðið var að yfirgefa hótel og var fluttur á spítala í skyndi.
Í ljósi þess að stutt er síðan miðherji Atlanta Hawks var bráðkvaddur á heimili sínu vegna hjartagalla, var mönnum mjög brugðið og var Medvedenko sendur í ítarlegar rannsóknir umsvifalaust. Ekkert óeðlilegt kom í ljós við rannsóknirnar, en Phil Jackson var nokkuð viss um að hann hefði svör við heilsuleysi hins hávaxna leikmanns.
"Hann hefur ekki geta sofið vel undanfarið vegna verkja í baki, en svo kom í ljós að hann át engan morgunverð, heldur borðaði bara eitt Snickers súkkulaði klukkan ellefu um morguninn. Hann er eins og óþægur krakki," sagði Jackson, sem var ekki hrifinn af háttalagi leikmannsins.