Það verður sannkallaður Austurdeildarslagur á dagskrá í NBA deildinni í nótt, en það er viðureign Indiana Pacers og Cleveland Cavaliers. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV klukkan eitt eftir miðnætti, en þar má gera ráð fyrir hörkurimmu.
Cleveland hefur unnið átta leiki í röð og er heitasta lið deildarinnar í dag, en Indiana-liðið er ekki auðvelt heim að sækja og spennandi verður að fylgjast með einvígi þeirra LeBron James og Ron Artest. LeBron James hefur skorað 36 stig fyrir Cleveland tvo leiki í röð, en Artest er einn besti varnarmaður deildarinnar.
Indiana hefur unnið sex síðustu heimaleiki sína gegn Cleveland og vann þrjár af fjórum viðureignum liðanna í fyrra. LeBron James er stigahæsti leikmaður Cleveland með 28,4 stig að meðaltali í leik, en Jermain O´Neal skorar að meðaltali 21,6 stig og hirðir 10 fráköst í leik fyrir Indiana.