Innlent

Handteknir fyrir veggjakrot

Tveir sautján ára drengir voru handteknir við veggjakrot við Miklubraut í nótt. Lögreglan hefur reynt að hafa hendur í hári þeirra um nokkurt skeið en myndfletir þeirra eru meðal annars bílar og umferðarskilti.

Drengirnir voru handteknir þar sem þeir voru að spreyja á umferðarskilti við Bensínstöð Orkunnar við Miklubraut í nótt. Málið er litið alvarlegum augum en veggjakrot og skemmdarverk sem þessi eru víða um borg og eru kostnaðarsöm fyrir skattborgara. Hjá umferðardeild Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar á Höfða, fengust þær upplýsingar að kostnaður vegna veggjakrots geti numið tugum þúsunda fyrir hvert skilti, allt eftir því hversu stórt það er. Reynist ekki hægt að þrífa skiltið þarf að smíða nýtt skilti og setja það upp. Lítil umferðarskilti kosta um tíu þúsund en kostnaður við smíði og uppsetningu stærri skilta geta numið nokkrum tugum þúsunda.

Drengirnir voru með myndbandsupptökuvél á sér og grunur leikur á að þeir hafi myndað iðju sína og ætlað að setja á Netið. Mál þeirra er í rannsókn en þeirra bíða líklega þungar sektir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×