Innlent

Trúnaðarbrestur milli stjórnvalda og bótaþega

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli stjórnvalda, aldraðra og öryrkja. Umræður um öryrkjaskýrslu Stefáns Ólafssonar endurspeglaði það. Hún vildi vita á Alþingi í dag hvort forsætisráðherra vildi beita sér fyrir fimm ára áætlun í samvinnu við fulltrúa lífeyrisþega í málefnum þessara hópa.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vitnaði í skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors og sagði að ef heildartekjur öryrkja út frá skattframtölum væru skoðaðar kæmi í ljós, að meðaltekjur þeirra hefðu ekki þróast með sama hætti og tekjur annarra. Stjarnan í örorkukerfinu, sá einstaklingur sem væri metin til fullrar örorku fyrir átján ára aldur, ætti rétt á bótum sem næmu um eitthundrað og sjö þúsund króna ráðstöfunartekjum á mánuði.

Halldór Ásgrímsson sagðist telja að málefni öryrkja og aldraðra væru í eðlilegum farvegi, það þyrfti enga fimm ára áætlun. Hann gaf ekki mikið fyrir skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors og viðbrögð hans við gagnrýni ráðamanna á hana. "Ég er mjög undrandi á þessum prófessor að vera ekki tilbúinn að leiðrétta skýrslu sína."

 

Árni Mathiesen fjármálaráðherra var sama sinnis og sagði skýrsluna valda miklum vonbrigðum. Hann sagði niðurstöðuna svo fulla af rangfærslum að skýrslan væri nánast ónothæf.

 

Formaður frjálslynda flokksins spurði hvort ráðherrann gæti ekki valið aðra jólakveðju til öryrkja.

Formaður Samfylkingarinnar sagði að í grundvallaratriðum snerist málið um hvert menn vildu stefna með norrænu velferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×