Innlent

Skattbyrði allra nema þeirra tekjuhæstu eykst

Skattbyrði allra nema hinna tekjuhæstu hefur aukist þrátt fyrir skattalækkanir síðustu ára.
Skattbyrði allra nema hinna tekjuhæstu hefur aukist þrátt fyrir skattalækkanir síðustu ára.

Skattbyrði hefur aukist hjá öllum síðustu tvö árin, nema þeim tekjuhæstu. Hjá þeim hefur skattbyrðin lækkað.

Þrátt fyrir skattalækkanir síðustu ára, sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um í upphafi kjörtímabilsins, hefur skattbyrði flestra landsmanna hækkað síðustu árin að því er fram kemur í svari Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Skattbyrðin er þá reiknuð með því að talinn er saman tekjuskattur, hátekjuskattur, útsvar og fjármagnstekjuskattur sem hlutfall af tekjum en frá dragast barnabætur og vaxtabætur.

Athygli vekur að skattbyrði þeirra tíu prósenta hjóna og sambúðarfólks sem hafa lægstar tekjur hækkar mest, eða um 2,9 prósentustig milli áranna 2002 og 2004. Skattbyrði tíu prósentanna sem hæstar tekjur hafa lækkaði hins vegar um 1,7 prósentustig á sama tíma.

Rannveig Guðmundsdóttir segir að þetta hafi verið fyrirséð þegar ríkisstjórnin hafi ákveðið að lækka tekjuskattsprósentuna en láta persónuafsláttinn standa í stað. Slík breyting hafi alltaf í för með sér að þeir sem njóta mest góðs af eru þeir tekjuhæstu en lág- og miðtekjufólk hagnist síður á breytingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×