Þær stórfréttir bárust úr Formúlu 1 í morgun að heimsmeistarinn ungi, Fernando Alonso hjá Renault, hefur samþykkt að ganga til liðs við McLaren árið 2007 þegar samningur hans við Renault rennur út.
McLaren skrifaði á dögunum undir stóran styrktarsamning við fjarskiptarisann Vodafone og ljóst er að koma Alonso til liðsins þýðir að annað hvort Kimi Raikönnen eða Juan Pablo Montoya verður látinn víkja þegar að því kemur.
"Það eru frábær tíðindi að stefna okkar og framtíðaráform skuli geta orðið til þess að heimsmeistarinn vill koma til okkar. Við höfum alltaf verið með skýra stefnu, við viljum bara þá bestu á okkar bandi," sagði Ron Dennis, stjóri McLaren.
"Það verður gaman að verða partur af liði með jafn gríðarlegan metnað og ástríðu til að sigra og þetta er draumur sem er að verða að veruleika. Þetta verður nýtt upphaf fyrir mig og gríðarleg áskorun. Ég er ánægður að vera búinn að ganga frá þessum samningi og þó ég eigi vissulega eftir að sakna Renault-liðsins, koma bara stundum tækifæri sem maður verður að grípa. Ég get þó fullvissað alla um að ég verð 100% ákveðinn í að verja titil minn með Renault á næsta tímabili," sagði heimsmeistarinn ungi.