Það kom mörgum í opna skjöldu þegar þeir sáu leikmannahóp Keflvíkinga í leiknum við Njarðvík í kvöld að gamla kempan Guðjón Skúlason var mættur aftur á bekkinn hjá Keflvíkingum. Ekki nóg með það heldur var hann aftur kominn með sitt gamla númer, sem er númer tólf, og Arnar Freyr Jónsson var þess í stað kominn í treyju númer fimm.
Guðjón fékk að koma inná í leiknum og komst meira að segja á blað í stigaskorun án þess að spila í raun eina einustu mínútu, því hann smellti niður tveimur tæknivítum um leið og hann kom inná, en það voru hans einu stig á þeim tveimur mínútum sem hann spilaði. Þetta var sannarlega skemmtileg uppákoma og greinilegt að Guðjón hefur ekki kunnað við gömlu skóna á hillunni, en hann hætti sem kunnugt er að spila með Keflavík vorið 2003.