Mikil gleði var í Rúgbrauðsgerðinni í gærmorgun þegar skrifað var undir nýjan samning um kjör starfsmanna svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra. Var feginleikinn svo mikill að slegið var upp í heljarinnar hópknús á meðan blekið þornaði.
Að sögn Salóme Þórisdóttir, formanns Þroskaþjálfafélags Íslands, er hún ágætlega sátt við frágang mála og að um umtalsverða hækkun sé að ræða. Þó mættu launin vera enn hærri.
Þeir starfsmenn sem sagt höfðu upp störfum sínum ætla nú að fara yfir samninginn og ákveða hvort þeir dragi afsögn sína til baka eða haldi sínu striki, segir Ásta Knútsen forstöðuþroskaþjálfi sem var í forsvari aðgerðarnefndar. Hún segir að einungis einni lotu baráttunnar sé lokið og enn sé langt í land þar til þessi störf hljóti viðurkenningu.