Kreditkortafærslur, staðsetning símtækja og úthringiupplýsingar auk augnskanna í líkamsræktarstöðinni World Class komu lögreglunni á spor Litháans, sem búsettur er hér á landi, og er ásamt öðrum ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Það var í kjölfar þess að landi hans var tekinn með tvær flöskur af fljótandi am-fetamíni í febrúar.
Mennirnir eru ákærðir fyrir innflutning á amfetamínbasa, fíkniefninu í fljótandi formi, sem hægt er að breyta í 1,8 kíló af amfetamínsúlfati, eða í fast form til söludreifingar. Þeir eru taldir hafa átt vitorðsmann í Litháen.
Maðurinn sem handtekinn var í Leifsstöð var stöðvaður þar sem hann þótti órólegur og stressaður. Hvítvínsflöskurnar sem hann bar í handtösku voru því skoðaðar nánar. Þrátt fyrir að flöskurnar væru hver frá sínu landinu var frágangurinn á töppunum sá sami, stúturinn steyptur aftur með vaxi.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að hann hafði einnig komið til landsins í desember. Þá hafði sá sem ákærður er með honum borgað fyrir hann flugfarið heim í gegnum netið. Það kom lögreglunni á sporið sem og símanúmer sem einnig var skráð við söluna. Lögreglan lagði fram gögn sem sýndu staðsetningar símans til að reyna að sanna að eigandi kortsins ætti einnig óskráða símanúmerið.