Fornleifafræðingar hafa komið niður á langhús við Hrísbrú í Mosfellsdal. Húsið er rúmlega tuttugu metra langt og má ráða af stærð þess að þar hafi búið höfðingjar.
Jesse Byock, prófessor í norrænni fornleifafræði við Háskólann í Kaliforníu, hefur stjórnað uppgreftinum, en þetta er sjötta sumarið sem grafið er við Hrísbrú.
„Við komum niður á langhúsið í fyrra en vissum þá ekki hversu stórt það var,“ segir Jesse. Hann segir að stærð hússins hafi komið í ljós í síðustu viku. Jesse segir húsið í merkilega góðu ástandi en það er að öllum líkindum frá 10. öld. „Landnámslagið er í torfum alls staðar og húsið liggur langt undir öskulögum úr Kötlugosi frá fimmtándu öld.“
Ýmsar merkar fornminjar hafa fundist við uppgröftinn á Hrísbrú, meðal annars kirkja og grafir að kristnum og heiðnum sið.
Mögulegt er talið að Egill Skallagrímsson hafi verið grafinn í kirkjugarðinum við Hrísbrú, en fram kemur í Egilssögu að hann hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal.