Erlent

Borgaraflokkarnir vinna á

Persson og Reinfeldt Frá fyrsta sjónvarpseinvígi leiðtoga forystuflokka beggja fylkinga í sænskum stjórnmálum í maí í vor, Göran Persson forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins, og Fredrik Reinfeldt, formaður sænska hægriflokksins Moderatarna.
Persson og Reinfeldt Frá fyrsta sjónvarpseinvígi leiðtoga forystuflokka beggja fylkinga í sænskum stjórnmálum í maí í vor, Göran Persson forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins, og Fredrik Reinfeldt, formaður sænska hægriflokksins Moderatarna. MYND/nordicphotos/afp

Kosningabandalag borgaralegu flokkanna í Svíþjóð mælist með meirihlutafylgi í tveimur nýjum skoðanakönnunum. Fylgi jafnaðarmanna og bandamanna þeirra á vinstri vængnum dalar talsvert frá síðustu könnunum. Þingkosningar fara fram í Svíþjóð hinn 17. september næstkomandi.

Í könnun Sifos-stofnunarinnar, sem niðurstöður voru birtar úr í Svenska Dagbladet og fleiri blöðum í gær, fá borgaraflokkarnir samtals 50,5 prósent atkvæða, en fylgi Jafnaðarmannaflokksins og smáflokkanna tveggja sem eru með honum í vinstribandalaginu, Græningja og Vinstriflokksins, mælist samtals 45,8 prósent.

Í niðurstöðum könnunar sem Demoskop gerði fyrir sjónvarpsstöðina TV4 og dagblaðið Expressen mælist fylgi borgaraflokkanna 50,4 prósent en vinstriflokkabandalagsins 45,8 prósent.

Í fyrrnefndu könnuninni mælist fylgi jafnaðarmanna nú þremur prósentustigum minna en í síðustu könnun um miðjan júní, í hinni tveimur prósentustigum minna.

Nærri fimmti hver kjósandi segist í könnununum ekki hafa gert upp hug sinn ennþá.

Dagens Nyheter hefur eftir stjórnmálafræðingnum Olof Peters­son að minna sé að marka kannanir sem gerðar eru á sumarleyfistíma landsmanna. Í Svenska Dagbladet er bent á að í tveimur síðustu kosningum hafi jafnaðarmenn haldið því fylgi í kosningum í september sem þeir mældust með í ágúst, en borgaraflokkarnir fengu minna upp úr kjörkössunum þá en þeir mældust með mánuði fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×