Um helmingur starfsmanna varnarliðsins, sem búsettir eru á Suðurnesjum, hefur fengið starf annars staðar nú þegar sjö vikur eru til loka uppsagnarfrests. 427 starfsmenn búsettir á Suðurnesjum voru starfandi hjá varnarliðinu í mars og þar af hafa 217 manns farið til annarra starfa. Í rauninni er nóg framboð af störfum segir Helga Jóhanna Oddsdóttir sem veitir Ráðgjafarstofu fyrir starfsmenn varnarliðsins forstöðu. Stofunni var komið á legg að tilstuðlan Reykjanesbæjar og starfsgreinafélaga á svæðinu í lok mars þegar starfsmenn varnarliðsins fengu uppsagnarbréf.