Athafnamaðurinn Steve Forbes er væntanlegur til landsins. Forbes, sem er aðaleigandi, forstjóri og ritstjóri viðskiptatímaritsins Forbes, mun halda fyrirlestur þann 6. febrúar næstkomandi. Einar Bárðarson, umboðsmaður og tónleikahaldari, stendur fyrir komu hans til landsins.
Fyrirlesturinn er liður í fyrirlestraröðinni Stefnumót við leiðtoga. Meðal annarra fyrirlesara í þeirri röð er Mikhail Gorbachev sem mun tala í Háskólabíói þann 12. október.
Steve Forbes er forstjóri og stjórnarformaður útgáfurisans Forbes Inc. en það gefur út eitt útbreiddasta viðskiptatímarit í heimi, Forbes. Samanlagt selst það að jafnaði í níu hundruð þúsund eintökum í Bandaríkjunum og nær til um fimm milljóna lesenda á heimsvísu á átta tungumálum.
Forbes sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs árin 1996 og 2000 án árangurs. Í fyrra skiptið tapaði hann fyrir Bob Dole en í það seinna fyrir George W. Bush, núverandi Bandaríkjaforseta. Forbes hefur einnig verið einn helsti ráðgjafi bandarískra stjórnvalda í málefnum fjölmiðla.