Stofnun sérstakrar kynferðisbrotadeildar er á meðal þess sem lagt er til í nýju skipuriti um löggæslu á höfuðborgarsvæðinu sem er nú í umsagnarferli hjá dómsmálaráðuneytinu og ríkislögreglustjóra.
Að sögn Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjórans í Reykjavík, er þetta ein af mörgum hugmyndum sem verða kynntar þegar umsagnarferli lýkur. Þetta tengist inn á þær skipulagsbreytingar sem verða um næstu áramót þegar embætti lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumanna í Kópavogi og Hafnarfirði verða sameinuð í lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu.