Markmið nýs lögregluembættis á höfuðborgarsvæðinu er að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í gær við kynningu áhersluatriða nýs lögregluembættis á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, var skipaður í sumar og síðan þá hefur verið unnið að stofnun þessa nýja embættis og staðfesti dómsmálaráðherra skipurit þess í dag til bráðabirgða.
Þeir þættir sem taldir eru skipta mestu máli ef auka á öryggistilfinningu íbúa höfuðborgarsvæðisins eru aukin sýnileg löggæsla, efling hverfalöggæslu í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir og einstaklinga, skilvirkari rannsóknir á sakamálum, skilvirk upplýsingamiðlun innan embættisins og til almennings og að nýta fjármuni betur.
Gert er ráð fyrir því að starfsemi embættisins skiptist í tvö meginsvið, annars vegar löggæslusvið og hins vegar stjórnsýslu- og þjónustusvið. Aðstoðarlögreglustjórar fara með yfirstjórn þessara tveggja sviða. Unnið verður að frekari tilflutningi stjórnenda- og starfsmanna til hins nýja embættis.