Gistinóttum á hótelum í ágúst fjölgaði um tæp sex prósent á milli ára. Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 162.900 en voru 154.100 í sama mánuði í fyrra.
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum en hlutfallslega mest á Norðurlandi, þar sem gistinóttum fjölgaði um 23 prósent milli ára.
Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um sautján prósent en fjölgun á Suðurlandi var 7,5 prósent. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um fjögur prósent en um tæplega eitt prósent í Reykjavík.