Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir fimmtíu tonn af Hrafntinnu, sem tekin voru á friðlýstu svæði við Hrafntinnusker til þess að nota við klæðningu Þjóðleikhússins, vera aðeins lítið brot af því magni sem er að finna á Hrafntinnu við Hrafntinnusker.
Hrafntinnutakan hefur fallið í grýttan jarðveg hjá velunnurum svæðisins við Hrafntinnusker. „Það var mat sérfræðinga að það væri hægt að ná í þetta efni án þess að ganga nærri svæðinu. Þetta eru samtals fimmtíu tonn en á því svæði sem var skoðað voru um fjögur hundruð tonn. Í heild eru meira en fimm þúsund tonn á svæðinu þannig að þetta er lítið brot af heildinni," segir Davíð.
Hann segist jafnframt líta svo á að uppbygging Þjóðleikhússins þjóni mikilvægu hlutverki fyrir íslenska menningu. „Við höfum litið svo á að menningarsaga Íslands sé hluti af hinni eiginlegu náttúruvernd. Við teljum Þjóðleikhúsið vera mikilvægan hluta af menningarhlutverki þjóðarinnar og útlit hússins."
Á tveimur stöðum á Íslandi er hægt að finna Hrafntinnu í umtalsverðu magni, í nágrenni við Kröflu á Mývatnssvæðinu og við Hrafntinnusker.