Erlent

Pólitísk pattstaða í Hollandi

Forsætisráðherrann fagnar sigri
Forsætisráðherrann fagnar sigri MYND/AP

Kosningaúrslitin í Hollandi þykja staðfesting á því hve þjóðin er klofin í afstöðu sinni til innflytjenda og velferðarríkisins. Tíu flokkar náðu manni á þing en enginn augljós þingmeirihluti blasir við til stjórnarmyndunar.

Flest þingsætin komu í hlut Kristilegra demókrata, sem hafa farið með stjórn landsins undanfarin ár. Jan Peter Balkanende, leiðtogi flokksins, verður því væntanlega áfram forsætisráðherra.

Flokkurinn hlaut ekki nema 41 af alls 150 þingsætum, sem að vísu er níu þingsætum meira en Verkamannaflokkurinn hefur, en nægir þó hvergi til þess að mynda meirihlutastjórn með Frjálslynda flokknum, sem hlaut 22 þingsæti en sat fram að þessum kosningum í minnihlutastjórn með Kristilegum demókrötum.

Allir þessir flokkar töpuðu þingsætum. Kristilegir demókratar töpuðu þremur, Verkamannaflokkurinn tíu, og Frjálslyndir sex, en stærsta sigurinn vann Sósíalistaflokkurinn, sem bætti við sig 17 þingsætum, hlaut 26 þingsæti og er þar með orðinn þriðji stærsti flokkurinn á þingi.

Margir stjórnmálaskýrendur segja að eini starfhæfi meirihlutinn væri fenginn með því að Kristilegir demókratar og Verkamannaflokkurinn tækju saman höndum og myndi „stóra samsteypustjórn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×