Stofnmæling botnfiska að haustlagi var gerð í ellefta sinn dagana 28. september - 30. október síðastliðinn. Rannsóknasvæðið miðast við landgrunn Íslands allt niður á 1.500 metra dýpi og er skipt í grunn- og djúpslóð.
Til rannsóknanna voru notuð bæði rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Alls var togað á 381 stað allt í kringum landið.
Helstu niðurstöður eru þær að stofnvísitala þorsks lækkar, ýsa, grálúða og djúpkarfi standa nokkurn veginn í stað en stofnvísitala gullkarfa hefur hækkað.