Það á ekki af Steve Bruce og félögum í Birmingham að ganga í vetur og nú er ljóst að varnarmaðurinn Matthew Upson verður frá í mánuð eftir að hann sneri sig á ökkla eftir aðeins tíu mínútna leik gegn Chelsea á gamlársdag.
"Þetta er ótrúlegt ástand og ég held að allir sjái þarna ástæðu þess að við erum í botnbaráttunni," sagði Steve Bruce, sem hefur þurft að horfa á eftir átta mönnum á meiðslalistann í vetur. "Það á eftir að koma í ljós hvort við finnum leikmenn nú í janúar til að stoppa í skörðin og vonandi náum við að finna þennan mannskap sem fyrst, ekki veitir af," sagði Bruce.