Nígeríska undrabarnið John Obi Mikel hjá Lyn í Noregi hefur tapað máli sínu fyrir rétti í Noregi, þar sem hann fór fram á að vera látinn laus frá félaginu til að ganga í raðir eins af stóru félögunum á Englandi. Mál hins átján ára gamla leikmanns er orðið hið flóknasta, en hann skrifaði á sínum tíma undir samning við Manchester United og hélt því svo fram að hann hefði verið neyddur til að skrifa undir.
Chelsea hefur einnig verið lengi á eftir leikmanninum, sem er sagður einn sá efnilegasti í heiminum í sínum aldursflokki. Mikel hefur ekki spilað leik með Lyn síðan snemma á síðasta ári og nú er ljóst að Lyn er með öll spil á hendinni hvað varðar framtíð leikmannsins.