Forráðamenn AC Milan segja ekkert til í þeim sögusögnum sem eru að bendla miðjumanninn Gennaro Gattuso við sölu til Manchester United nú í janúar.
Adriano Galliani, yfirmaður knattspyrnumála hjá Milan, segir félagið ekki hafa áhuga á því að selja sína bestu leikmenn. "Gattuso hjá Manchester? Það eru draumórar," segir hann.
Vitað er að Alex Ferguson ætlar að kaupa einn miðjumann áður en leikmannaglugginn lokast í þessum mánuði og hefur hann lengi haft augastað á Gattuso. Ef svo ólíklega vill til að Galliani myndi snúast hugur er talið að Ferguson muni þurfa að punga út 12 milljónum punda til að fá Gattuso í lið sitt.