Úrvalsdeildarlið Tottenham Hotspur hefur ákveðið að lána svissneska landsliðsmanninn Reto Ziegler til Wigan út leiktíðina, en hinn ungi leikmaður var fyrir skömmu kallaður til baka úr láni frá Hamburg í Þýskalandi. Talið var að hann færi beint inn í leikmannahóp Tottenham á ný eftir Þýskalandsförina, en hann hefur nú verið lánaður til nýliðanna.
Þetta kemur sér vel fyrir Wigan, því Ziegler er löglegur með liðinu í báðar bikarkeppnir þar eð hann hefur ekkert spilað á þeim vettvangi fyrir Tottenham í vetur. "Reto er hátt skrifaður hjá Tottenham og hann hefur feykna reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann á eftir að styrkja hóp okkar mikið," sagði Paul Jewell, stjóri Wigan.