Meistarar Juventus tóku stórt skref í titilvörn sinni í ítölsku A-deildinni í kvöld þegar liðið lagði Inter Milan á útivelli 2-1 í stórleik helgarinnar sem sýndur var í beinni útsendingu á Sýn Extra. Zlatan Ibrahimovic kom Juve yfir í leiknum, en eftir að Walter Samuel jafnaði leikinn í síðari hálfleiknum, skoraði Alessandro del Piero sigurmark Tórínóliðsins fimm mínútum fyrir leikslok.
Juventus hefur því náð tólf stiga forskoti á Mílanóliðin AC og Inter í deildinni og fátt bendir til annars en að liðið standi uppi sem meistari enn einu sinni.