Frank Rijkaard var skiljanlega ánægður með sína menn eftir sigurinn á Chelsea á Stamford Bridge í Meistaradeildinni í gær og sagði að markið sem Chelsea skoraði hefði hjálpað liði sínu á undarlegan hátt.
"Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur og andrúmsloftið var spennuþrungið í meira lagi. Það var ef til vill þessvegna sem markið sem þeir skoruðu hjálpaði okkur, það tók af okkur mesta stressið og hjálpaði mínum mönnum að ná einbeitingu. Þeir brugðust rétt við og skiluðu sínu dagsverki vel," sagði Rijkaard.