Innlent

Mikill missir vegna lítils penings

Stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstæðingar lýstu miklum áhyggjum af því við upphaf þingfundar í dag að heimaþjónusta ljósmæðra hefði fallið niður vegna kjaradeilu þeirra við heilbrigðisráðuneytið.

Þingmenn furðuðu sig á því að kjaradeila ljósmæðra við heilbrigðisráðuneytið hefði gengið svo langt, sérstaklega í ljósi þess hversu lítið bæri í milli.

"Ef farið væri eftir ítrustu kröfum ljósmæðra myndi það valda fimmtán milljóna króna viðbótarkostnaði á ári fyrir ríkissjóð," sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. "Þetta er ekki neitt, neitt til að bregðast við."

Heilbrigðisráðherra sagði að samkvæmt sínum upplýsingum hefði heldur þokast í samkomulagsátt. "Hér er ekki um að ræða neinar tiltakanlega háar upphæðir," sagði hann. "Þetta er ekki stór hópur en við erum að ræða prósentuhækkanir og viðmiðanir við viðmiðunarstéttir. Það er það sem stendur á í þessu máli."

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að við samningagerð mættu stjórnvöld hafa í huga að talsverður sparnaður hefði þegar skilað sér í heilbrigðiskerfið og ríkissjóð vegna heimaþjónustunnar. "Það er búið að nýta þetta húsnæði og mannskap í aðra starfsemi þannig að ríkið er að spara óhemju fé á þessu."

Fleiri þingmenn höfðu áhyggjur af stöðu mála. "Hvernig má það vera, frú forseti, að það er teflt á tæpasta vað í þessari þjónustu," spurði Þórunn Sveinbjarnardóttir. "Hvernig má það vera að hún er látin niður falla sólarhringum saman og að sé í raun ekki ljóst hvenær hún verður tekin upp aftur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×