Fyrrum erfðaprins Framsóknarflokksins gekk af leikvelli stjórnmálanna í dag þegar forseti Íslands samþykkti afsögn hans sem félagsmálaráðherra á Ríkissráðsfundi í morgun. Eftir fundinn bað Árni flokksfélaga sína afsökunar á brotthvarfinu en sagði ástæður sínar persónulegar.
Margir töldu að Árni væri framtíðarleiðtogaefni Framsóknarflokksins en litlar líkur verða að teljast á því að hann verði nokkurn tíma formaður Framsóknarflokksins, eftir að hann hverfur til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka. Árni fetar því í fótspor annars fyrrum krónprins flokksins, Finns Ingólfssonar, sem var varaformaður flokksins og ráðherra þegar hann ákvað að hverfa til annarra starfa - í stöðu seðlabankastjóra. Árni var á sínum tíma aðstoðarmaður Finns í Iðnaðar og viðskiptaráðuneytinu. Árni kom afslappaður frá Ríkisráðsfundi og virtist sáttur yfir ákvörðun sinni.
Árni segist ekki vera að flýja flokkinn vegna slælegs gengis í skoðanakönnunum. Hann telur að flokkurinn muni rétta úr kútnum eins og fyrri daginn.
Árni útilokaði ekki að snúa aftur í pólitík síðar. En hann telur að framtíðin liggi þó enn í bankastarfsemi.